Fyrir rétt rúmri viku síðan breyttist allt heimilishaldið hjá okkur. Þá flutti inn ráðsettur fress, en hann var svo vænn að leyfa okkur mannfólkinu að búa hér áfram. Enda græðir hann á því, þá er einhver sem setur mat í dallinn hans, skiptir um vatn og sand og opnar glugga. Síðast en ekki síst er hægt að nota mannfólk í klapp og klór. Umræddur kisi heitir Loki og er svartur. Hann er þó farinn að fá nokkur hvít hár eins og hinn svarthærði sambýlingur hans.
Loki er ósköp kelinn, reyndar alveg vandræðalega kelinn. Ef ég sit í sófanum og halla mér aftur er kötturinn kominn og leggst á magann á mér, með trýnið í hægri handarkrika. Ef vel liggur á honum sér hann ástæðu til að þrífa bolinn minn eða peysuna - og við vitum nú öll hvaða þvotta-aðferðir kettir nota. Jújú, hann sleikir. Af áfergju! Þetta kelerí hans er svosem alveg ósköp notalegt ef maður er í skapi til að hafa kött í fanginu. Það getur hins vegar orðið svolítið erfitt ef maður heldur á þykkri Harry Potter bók, nú eða fartölvu. Ef ekki vill betur þá leggst hann bara ofan á lyklaborðið.
Já það er eins gott að muna hver er húsbóndinn hér!